The Balancing Work logo - click for Home Page

EMF Balancing Technique, LatticeLogic, The Symbol, UCL Tai Ji, Yoga for The Lattice, Reflections, The Waves


Hringiðan - Hugleiðsla

Þótt hringiðuhugleiðslan sé ekki löng er hún mikilvægur hluti af þeim upplýsingum sem EMF Balancing Technique® (EMF orkujöfnunartæknin) inniheldur sem heild. Í dag hefur maðurinn aðgang að því að halda og nýta sér hærri orkutíðni í daglegu lífi sínu og hjálpar hugleiðslan til við að undirbúa orkulíkamann fyrir meiri orkuhleðslu. Mörg okkar eru að uppgötva að það sem við höfum lengi leitað og beðið eftir er beint fyrir framan augu okkar, þ.e. okkar eigið líf. Það er gott að fara hægt í gegnum hugleiðsluna en þegar þú ert orðin/n kunnug/ur henni máttu fara eins hratt og þú vilt. Þú getur einnig séð fyrir þér orkuflæðið á meðan þú ferð í gegnum tölurnar frá eitt til tólf.

1 - Hin gullnu bein líkamans

Finndu fyrir, skynjaðu, ímyndaðu þér eða hugsaðu um gullna orku sem snýst réttsælis í hring í kringum fætur þínar. Leyfðu orkunni að fara inn í iljar þínar. Samsetning steinefna í beinum þínum gerir það að verkum að bein þín eru gott mið þessarar hreinsandi orku.

Nú skaltu beina hinni gullnu orku í gegnum hvert einasta bein. Beindu orkunni í gegnum tær þínar, ökkla, hné, inn í hnéskeljar og inn í lærin. Beindu orkunni í gegnum mjaðmir þínar, inn í rófubein og spjaldhrygg. Baðaðu hvern hryggjarlið gullnu orkunni. Leyfðu orkunni að flæða í gegnum axlir þínar og axlarblöð, niður brjóstkassann og í kringum rifbein þín. Beindu orkunni niður handleggi þína, úlnlið og inn í öll litlu beinin í höndum þínum og fingrum. Beindu nú orkunni upp í háls þinn, kjálka, tennur og upp í höfuðkúpu.

Nú hefur þú baðað hvert bein í líkama þínum í hinni gullnu orku. Leyfðu þér að njóta og finna hvernig gullna orkan flæðir um allan líkama þinn.

Slakaðu á og andaðu djúpt.

2 - Hinn gullni heili

Beindu nú athygli þinni að heila þínum og leyfðu honum að drekka í sig hina gullnu orku. Byrjaðu á heilaberkinum, gráa efninu sem hylur ysta hluta heilans. Beint fyrir innan gráa efnið er hvítt efni, stærsti hluti heilans. Leyfðu hvíta efninu að drekka í sig gullnu orkuna eins og svampur. Vitund þín mun stýra gullnu orkunni inn í bæði heilahvel þín eins og þörf er á. Eitt af störfum hins hvíta efnis er að auka yfirskilvitlega skynjun.

Einbeittu þér að svæðinu á milli augnabrúna þinna, aðeins fyrir ofan þær og þumlung inn í heila þinn. Þar er heiladingullinn staðsettur. Hann er perulaga kirtill. Leyfðu gullnu orkunni að umlykja algjörlega þennan litla kirtil og leyfðu honum síðan að drekka í sig orkuna. Um leið og þú miðlar orkunni í gegnum þennan kirtil skaltu einsetja þér að örva þær hormónabreytingar í líkama þínum sem henta þér til að taka næstu skref í þróun þinni. Heiladingullinn er fyrsta stig orkusambands við heilaköngulinn.

Beindu nú athygli þinni að miðju heila þíns. Þetta svæði er stundum kallað hin heilaga dyngja. Hér er heilaköngullinn staðsettur. Hann er lítill kirtill í laginu eins og nýrnabaun. Leyfðu hinni gullnu orku að umlykja heilaköngulinn og leyfðu honum síðan að drekka í sig orkuna.

Í þessum hluta heilans eru einnig staðsettar stúkan og undirstúkan. Stúkan er sett saman úr gráu efni samofnu við hvítt. Þessir tveir hlutar stúkunnar eru staðsettir á báðum heilahvelum heila þíns.

Stúkan sér um mátt sjónsköpunar þeirrar sem þú ert að nota núna. Sjáðu fyrir þér eða ímyndaðu þér gullið fiðrildi um leið og stúkan geislar í hinum gullna ljóma! Einsettu þér að styrkja tjáningu á innra eðli þínu.

Settu nú vitund þína á hnakka þinn, inn í miðjan heilastofns þíns. Hér finnur þú egglaga líffæri sem kallast “pons” en það er brúin á milli mænu og miðheila, sem er hluti af heilastofninum. Ímyndaðu þér að þetta egglaga líffæri geisli í hinum gullna ljóma. Einsettu þér síðan að beina gullnu orkunni alla leið niður í mænuna. Nú hefur þú fyllt heila þinn af orku.

Slakaðu á og andaðu djúpt.

3 - Innkirtlakerfið

Settu nú athygli þína inn á við og beindu hinni gullnu orku niður í gegnum innkirtlakerfið.

Beindu hinni gullnu orku fyrst inn í kalkkirtil og skjaldkirtil neðarlega á hálssvæðinu. Einsettu þér að báðir þessir kirtlar drekki í sig gullnu orkuna.

Fyrir ofan hjartastöð þína og fyrir innan bringubein þitt liggur hóstarkirtillinn. Sú orkustöð sem tengist hóstarkirtlinum er kölluð hærri hjartastöð. Kirtillinn og orka þessa svæðis er mikilvæg miðstöð flæðis hinnar gullnu orku innan efnislíkama þíns. Efling orkunnar sem geislar frá hærri hjartastöð er eitt af lykilatriðunum til kraftmikillar tjáningar á okkar rafmagnaða andlega eðli. Með því að auka getu okkar til að tjá þessa rafmögnuðu orku getum við hraðað heilunarferlinu þegar líkaminn hefur farið úr jafnvægi. Það er því mjög gott fyrir okkur að örva þetta svæði. Leyfðu gullnu orkunni að umlykja hóstarkirtilinn og auktu ásetning þinn um leið og hann drekkur í sig orkuna. Þegar kirtillinn er orðinn mettaður leyfðu gullnu orkunni að geisla í gegnum hverja frumu alls hjartasvæðisins. Sjáðu fyrir þér hvernig allt svæði hjarta þíns geislar í gullnum ljóma!

Beindu athygli þinni að hjartavöðva þínum. Hjartað er ekki hluti innkirtlakerfis þíns. Þrátt fyrir það getur gollurshúsið, það er pokinn sem umlykur hjartað, fyllst af nokkrum verðmætum dropum af hormónavökva. Þessi vökvi stuðlar að því að auka útgeislun hjartaorkunnar. Einsettu þér að fylla hjartað af gullinni orku vaxtar og kærleika.

Til vinstri við naflann er brisið. Einsettu þér að örva þetta líffæri með gullnu orkunni og styrkja getu þína til að halda áfram að melta og tileinka þér breytingarnar í orkunni sem eru að eiga sér stað í allri veru þinni.

Einbeittu þér nú að lendarsvæðinu að nýrnahettunum sem eru staðsettar ofan á nýrunum. Notaðu gullnu orkuna og einsettu þér að endurnýja algjörlega nýrnahetturnar.

Beindu nú athygli þinni aðeins neðar til kynkirtlanna, til eggjastokka eða eistna og baðaðu þá/þau í gullnu orkunni. Uppljómun er fyrir allar frumur líkama þíns, einnig þeirra sem eru fyrir neðan mitti.

Beindu orkunni niður, í gegnum mjaðmir þínar, læri, kálfa og iljar. Efnislíkami þinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Slakaðu á og andaðu djúpt.

4 - Orkan í kringum fæturna

Orkan hringsnýst nú í kringum fætur þínar og skapar sterka jarðtengingu. Styrktu hana enn frekar með því að skilja hve mikilvægt er að hafa djúpt samband við orku jarðar. Þessi heilaga jarðtenging stuðlar að getu þinni til að viðhalda orku á hærri tíðni, orku sem stendur þér til boða í dag.

Orkutíðnin breytist og byrjar að rísa mjúkt upp í gegnum orkusvið þitt sem þykkur gullinn geisli ljóss og orku. Beindu þessari gullnu orku í gegnum hvert orkusvæði sem tengt er kirtlakerfinu.

Breytinguna í orkunni er stundum hægt að greina sem breytingu á hitastigi eða titrandi tilfinningu um leið og þú byrjar að beina orkunni upp í gegnum orkusvæði fótanna, í gegnum orku fótleggjanna, upp í spjaldhrygg.

5 - Lífsmiðjan

Einbeittu þér nú að spjaldhryggnum og finndu, skynjaðu, ímyndaðu þér eða hugsaðu um geislandi kúlu sem er full af rauðri lífsorku. Um leið og gullna orkan fer mjúklega inn í kúluna byrjar gullið stjörnuljós að myndast með gylltu mynstri sem geislar út í allar áttir. Einbeittu þér að því að blessa, styrkja og koma jafnvægi á rótarstöð þína. Þannig skapar þú helga undirstöðu verundar þinnar sem þú þarfnast um leið og þú heldur áfram að samlaga kraft þíns guðdómlega eðlis að sjálfri/um þér.

Gullna orkan færist upp til næstu orkustöðvar, hvatastöðvarinnar.

6 - Hvatastöðin

Einbeittu þér nú að appelsínugulri kúlu sköpunar um leið og gullna orkan færist upp í átt til hvatastöðvar þinnar. Gullna orkan geislar um gjörvalla appelsínugula kúluna í gylltu mynstri eins og stjörnuljós. Einsettu þér að vera meðvituð/aður um hvernig þú tjáir kynorku þína. Kynorka þín er hluti lífsorku þinnar og þú getur stýrt henni til að greiða fyrir andlegri þróun þinni. Þetta svæði er einnig sæti sköpunargáfu þinnar. Uppörvaðu orkuflæðið hér til að auka viðleitni þína til samsköpunar í lífi þínu. Einsettu þér að blessa, styrkja og ná jafnvægi í orkustöðinni.

Andaðu.

7 - Tilfinningastöðin

Gullna orkan færist ofar. Beindu henni inn í gula kúlu tilfinningastöðvar þinnar. Finndu, skynjaðu ímyndaðu þér eða hugsaðu um mynstur sem líkist sólblómi um leið og gullna orkan endurómar á svæði tilfinningastöðvar þinnar.

Mundu að undirvitund þín er staðsett í tilfinningastöðinni og að öll blöð hins glitrandi sólblóms minna á allar þínar ólíku hliðar.

Andaðu djúpt og leyfðu þér að vera til!

8 - Hjartastöð og hærri hjartastöð

Einbeittu þér nú að því að beina gullnu orkunni hærra og inn í hina fallegu smaragðsgrænu hjartastöð þína.

Finndu hvernig orkan flæðir inn í fallegt síbreytilegt en margþætt mynstur gullinnar og grænnar orku. Hvert okkar hefur guðsneistann í hjörtum okkar og saman erum við eitt.

Beindu athygli þinni fyrir ofan hjarta þitt á svæði hóstarkirtils þíns. Þetta svæði er kallað hærri hjartastöð. Hér er staðsettur þykkur gullinn geisli. Einsettu þér að styrkja og efla gullna geislann. Þú gætir fundið hita og fyllingu í hjarta þínu um leið og þetta einstaka mynstur ljóss hjartaorku þinnar breiðir úr sér. Um leið og þú finnur og skynjar jafnvægi í hjarta þínu, mundu að vökva sjálfa/n þig með kærleika og síðan geisla honum út á við.

9 - Hálsstöð

Beindu gullnu orkunni upp og inn í bláa hálsstöð þína um leið og kærleiksorkan heldur áfram að geisla út á við. Þessi orkustöð er sérstakt hlið þar sem “himinn og jörð” orkan mætist og verður að nýtanlegri orku. Hálsstöðin er sæti tjáningar þíns innri sannleika. Mundu eftir mætti hins talaða orðs. Kappkostaðu að segja aðeins sannleikann, jafnvel í þeim málum sem virðast hafa litla þýðingu. Leyfðu þessari orku að hjálpa þér við að finna þína bestu tjáningu og hvernig þú kemur fram við heiminn og allt sem í honum er.

Þú mátt snúa höfðinu hægt til beggja hliða um leið og þú vinnur að því að koma orkunni í gegnum hálsstöðvarsvæði þitt. Þú hefur næstum lokið æfingunni.

Andaðu djúpt og einbeittu þér.

10 - Þriðja augað

Beindu nú samanþjappaðri gullnu orkunni upp í gegnum miðju heila þíns. Þriðja augað er svæðið í miðju heilans á milli heilakönguls og heiladinguls nær enni. Orkan hér er dimmfjólublá (indigo). Um leið og gullna orkan geislar í gegnum þessa tignarlegu orkustöð, lítur ljósmynstrið út eins og margblaða gimsteinn. Einsettu þér að dýpka visku þína og auka skilning þinn. Þú mátt hugleiða hvað það þýðir að hugsa með hjartanu og finna til með huganum. Þetta svæði er einnig tengt fjarskynjun, sjötta skilningarvitinu sem við erum að þróa á auknum hraða í dag.

11 - Höfuðstöð

Einbeittu þér nú að því að beina gullnu orkunni upp í gegnum höfuðstöð þína. Um leið og gullna orkan þyrlast upp og hringsnýst efst í kringum höfuð þitt, myndast einstakt mynstur ljóss í laginu eins og geislabaugur. Þetta er orkumynstur einingar. Gullna orka þíns mannlega eðlis sameinast hreinleika guðseðlis þíns.

12 - Að halda og sleppa

Andaðu nú djúpt inn í gegnum nefið og haltu andardrætti þínum andartak. Leyfðu orkunni að magnast. Andaðu nú einbeitt/ur út um munninn og sjáðu um leið fyrir þér gosbrunn litríkrar orku rísa upp úr höfði þínu og vefjast í hringi niður í kringum allan líkama þinn og í gegnum alla verund þína. Þessi hreyfing styrkir orkunet þitt og dýpkar tengsl þín við orku jarðar. Leyfðu þér að njóta. Þú gætir fundið tilfinninguna að vera komin heim.

Namaste, kæri vinur.

Og þannig lýkur hugleiðslunni.